Gúrú-chela-nema samband

From TSL Encyclopedia
Revision as of 13:09, 25 March 2025 by Hbraga (talk | contribs)
Other languages:

El Morya talar um gúrú-chela sambandið í bók sinni The Chela and the Path (Chela-neminn og vegurinn):

Chela er hugtak sem merkir lærisveinn eða aganemi* andlegs kennara. Það er dregið af hindí-orðinu celã, sem er fengið úr sanskrít, ceta, sem merkir þræll. Í austurlenskri chela-nemahefð, hefur þetta í þúsundir ár verið viðtekin leið til sjálfs-stjórnar og uppljómunar og á við þá sem þrá að hljóta þá þekkingu á leyndardómum alheimslögmálsins sem kennarar, öðru nafni "gúrúar", og meintir meistarar veita chela-nemum. (Í gegnum aldirnar hafa sannir gúrúar verið bæði uppstignir og óuppstignir meistarar). Chela-neminn þjónar meistaranum þar til hann reynist verðugur til að hljóta lyklana sem opna gáttirnar að sínum eigin innri veruleika.

Í austurlenskri hefð er chela-neminn þræll meistara síns í góðu skyni – ekki til þess að týna sínu sanna auðkenni heldur til að hafa skipti á falsímynd sinni fyrir raunverulega sjálfsmynd sína. Með undirgefni sinni vefur chela-neminn dag frá degi inn í vitund sína þræði úr klæði húsbónda síns. Flík meistarans (sem hinn eftirsótti möttull Krists) er annað heiti á vitund meistarans.

Í skiptum fyrir upplýsta hlýðni og fórnfúsan kærleik öðlast chela-neminn smám saman hlutdeild í atgervi meistarans – í raunbirtingu meistarans á sínu sanna sjálfi. Með því að meðtaka orð meistarans sem óskeikul, hefur chela-neminn yfirfært Krists-vitund meistarans til sín sem leiðir til þess að hinn brennandi helgi eldur sem vitund meistarans býr yfir bræðir bæði óheflaða þætti í undirvitund chela-nemans og óverkað karma hans. Með því að leggja til hliðar af fúsum og frjálsum vilja fastmótaða mennska vitund sína uppgötvar chela-neminn að vitundinni er fljótlega skipt út fyrir færni kennara síns. Þegar chela-neminn eignar sér vitundarfærni meistarans verkar hún líkt og segull sem magnar æðri vitund chela-nemans og árangur.

Hinn sanni kennari kennir chela-nemunum hvernig hægt er að ná tökum á karma sínu – í fortíð, nútíð og framtíð. Hann sýnir honum hvernig hægt er að rannsaka virkni orsakalögmálsins í eigin lífi og rekja óæskilegar aðstæður nútímans í meginatriðum til fyrri athafna og samskipta við einstaklinga, fjölskyldu og heiminn í heild. Þannig hafa viðbrögð fortíðarinnar afleiðingar í nútímanum; og skref fyrir skref er chela-nemanum kennt að rekja úr klæðnaði vitundar sinnar svarta þræði ógrundaðrar sáningar fortíðarinnar svo hann geti uppskorið ríkulega í karma framtíðarinnar.

Til að gera þetta verður chela-neminn að yfirstíga fyrra vitundarástand; ellegar mun hann endurtaka sömu mistökin. Til að komast yfir slíkt ástand verður hann að svipta af sér hulu sinnar eigin takmörkuðu vitundar – blindgötu forgengilegrar rökhyggju sem hann hefur ráfað og reikað um í aldaraðir fyrri lífa. Þegar nemandinn er þannig tilbúinn að snúa við blaðinu og söðla um birtist kennarinn honum.

Meistarinn Kúthúmi skrifaði eitt sinn til verðandi chela-nema að meistarinn væri „tilneyddur“ að taka við honum. Því, sjáðu til, samkvæmt andlegum lögmálum verða hinir uppstignu meistarar að taka að sér sem chela-nema þá sem lifa og hrærast samkvæmt vilja Guðs á vegi sjálfsagans og sjálfs-fórnarinnar. Þegar chela-neminn, með óbilandi þjónustulund, sýnir sig vera í raun þrælbundinn demants-skínandi huga Guðs og neitar að lúta öðrum skurðgoðum með sínum ófullburða sjálfsmyndum, þá stendur hann fyrr en varir andspænis annað hvort uppstignum eða óuppstignum meistara hins Stóra hvíta bræðralags eða einum jarðneskra fulltrúa okkar sem munu sjá honum fyrir kennslu í ákveðnum kenningum og hagnýtum skrefum til að ná því marki að endursameinast guðdóminum þar sem meðvitundin tengist innri vitundinni og sálin nær að birta að fullu meðfæddan guðdóm sinn.

Eins og oft vill verða halda hinir uppstignu meistarar sig á bak við huluna, sem þýðir einfaldlega að vegna skorts á framsali eða vegna vanþroska chela-nemans fara þeir huldu höfði og kjósa að fara undan í flæmingi fyrir ytri vitund leitandans, fara allt að því í skollaleik við chela-nemann. Það er allt í því skyni að kynda undir leit nemans að gúrúnum; því það er viðleitnin – hin ákafa sókn – eftir einingu sem auðkennir sigurvegarann.

Þegar þú hugleiðir stað þinn á veginum og aðstæður lífs þíns – hvað þú ert, hvað þú þráir að vera, hvar þú ert og hvar þú þráir að vera – íhugaðu þá að kærleikur er lögmál andlegrar agaþjálfunar. Og ef þú ferð inn á þá braut sem flýtileið að sjálfs-skilningi, þá verður þú að meðtaka orð hans óttalaus: „Sá sem vill sjá lífi sínu borgið mun týna því en sá sem týnir því mun öðlast líf.“[1] Morya kallar saman chela-nema hins helga elds, tilvonandi fullnuma, fylgjendur og tilvonandi návini Krists, talsmenn hins lifandi orðs sannleikans, eftirlíkjendur meistarans og að lokum hjarta, höfuð og hendur kosmísks fylgdarliðs okkar.

Við leitumst við að samstilla plánetuna. Við leitumst við að yfirskyggja, að verða eitt með, vinna í gegnum – já, að úthella kjarna sjálfsmyndar okkar í upplyft hjörtu, kaleik vitundar okkar reistan til upphæða. Við krefjumst alls af þeim sem við gefum allt af okkur. Spurningin er: Ert þú tilbúinn til að hafa skipti á lægra sjálfi þínu fyrir æðra sjálf þitt? Sú leið sem býður upp á mikið krefst mikils. Eins og sagt er; þú færð það sem þú borgar fyrir. Verðið er hátt, en þá ber þess að gæta að þú ert að kaupa hinn hinsta veruleika. [2]

Sjá einnig

Gúrú

Til frekari upplýsinga

El Morya, The Chela and the Path: Keys to Soul Mastery in the Aquarian Age.

Heimildir

  1. Matt 16:25; Mark 8:35; Lúk 9:24.
  2. El Morya, Chela-neminn og vegurinn: Leiðarlyklar að sálarstjórn á vatnsberaöld, 2. kafli.