Hlustandi engill

From TSL Encyclopedia
This page is a translated version of the page Listening Angel and the translation is 100% complete.
Other languages:
Hlustandi engill

Þessi elskaði engill og hersveitirnar í stjórn hans eru umvafðir rauðgulum og gylltum logum. Alfa og Ómega hafa falið þeim að hlusta á bænir, hjartaköll, innstu hugsanir mannkyns jarðarinnar og bera bænir þeirra á vængjum ljóssins hinum alvalda til ráðstöfunar.

Hlustandi engill og hersveitir hans eru heilagir huggarar, vinir sem leggja við hlustir á neyðarstundum og veita mannkyninu visku og samúð úr hjörtum sínum þegar það úthellir vandræðum sínum til þessara englavitjenda. Samúðarlogi hans hefur kjölfestu í Sólarhofinu uppi yfir eyjunni Manhattan.

Við getum lært margt af Hlustandi engli sem segir:

Börn bera fram bænir sínar frá hjörtum sínum í gegnum sál þeirra eftir að þau hafa yfirgefið líkamann þegar þau sofa á nóttunni. Þetta eru dýrmætustu bænir sem við heyrum frá allri jörðinni. Börn biðja um náð, ekki um leikföng.

Börn muna eftir Guði því þau eru enn lítil og geta enn skyggnst í gegnum huluna handan áttundavíddanna þar sem þau greina ljósheimili sín. Börn bera með sér löngun til að hugga foreldra sína, fullkomlega meðvituð um að foreldrar þeirra bera þungar áhyggjur og raunir heimsins. Ó, hvílík blessun það er að hlúa að þessu fínstillta næmi barna og tilfinningu þeirra fyrir því að vera svo nálægt Guði í gegnum engla!

ÉG ER svo sannarlega Hlustandi engillinn ykkar og ég fer fyrir óteljandi englasveitum sem hlusta ekki aðeins á bænirnar heldur margs konar tjáningu fólks á jörðinni: örvinglun þess, reiði, sjálfsvorkunn, einmanatilfinningu þess um víða veröld þar sem vöntun er á raunverulegri dýpt og ekki lengur geta til nándar í andlegum efnum í samfélagi við Guð eða við önnur hjörtu. Og eru þetta ekki bænir líka?

Margt fólk á jörðinni þjáist, eins og þið vitið, og það biður ekki. Þess vegna verðum við að hlusta á tjáningu sálarinnar sem er kannski ekki orðuð því sársauki mannanna er svo mikill. Hlustandi englar eru til staðar þegar fólk hverfur úr lífinu á þjáningarfullan hátt og á gleðistundum við fæðingu barna.

Hlustandi englar eru til staðar til að hugga sálir þegar líkamar þeirra fara í gegnum fóstureyðingu sem kemur í veg fyrir að þær geti gegnt köllun sinni í lífinu. Ó, við hlúum að þessum sálum af mikilli alúð svo að þær beri ekki ör þegar þær verða að ganga enn og aftur inn í móðurkvið lífsins og ef til vill upplifa endurtekin áföll uns einhver tekur á móti þeim í stað þess að loka dyrunum fyrir þeim og murka úr þeim lífsandann.

Jörðin og fólk hennar er því að glíma við meira karma en það hefur tekist á við í margar aldir (ef það væri hægt, og það er örugglega mögulegt að svo sé), og þess vegna er þunginn sem hvílir á líkama fólks sem gerir það angistarfullt.

Sumir hafa komið sér vel fyrir í lífinu og þess vegna telja þeir sig vera í góðu jafnvægi, hamingjusama, hafa allt sem til þarf af efnislegum gæðum. Samt hafa margir þeirra misst samband við sál sína og upplifa ekki Guð. Því að þeir hafa afmáð sálarhæfileika sína, og þótt þeir telji sig efnaða og ríka af eignum og líða engan skort, vita þeir ekki að sál þeirra er nakin og snauð.

Það eru margir sem afmá ekki aðeins eigin sál heldur sinn eigin guðlega neista, sinn eigin lífstilgang, og þeir afmá englana og Guð líka. Og þeir eru handvissir um að þeir hafi rétt fyrir sér í hverri afstöðu sem þeir taka — félagslega, efnahagslega, pólitíska.

Allar skoðanir þeirra eru auðvitað réttar. Já, ástvinir, svo vissir eru svo margir í sinni sök sem ættu alls ekki að vera vissir því þeir hafa ekki raunverulega og lifandi snertingu við sína eigin sál eða við Guð.[1]

Heimildir

Mark L. Prophet and Elizabeth Clare Prophet, The Masters and Their Retreats, sjá “Listening Angel”.

  1. Listening Angel, “Teach the Children!” Pearls of Wisdom, 35. bindi, nr. 60, 4. desember 1992.