Translations:El Morya/10/is
Hann hafi verið súmerskur aðalsmaður af konungborinni prestaætt. Hann hafi rekið stórt heimili og einkaher. Reyndar er Abraham lýst í Mósebók sem hafi átt í samskiptum við konunga, gert hernaðarbandalög og samið um jarðakaup. Hann er sagður hafa verið friðelskur, vopnfær, stórmannlegur og göfuglyndur sigurvegari, holdgervingur hugsjóna, réttlætis, réttvísi, ráðvendni og gestrisni. Honum er einnig lýst sem spámanni og milligöngumanni frammi fyrir Guði. En það sem mikilvægast er, Abraham er fyrirmyndarmaður (frumgerð mannsins) en hélt fast við trú sína á endurtekin loforð Drottins um að hann yrði „faðir margra þjóða“, jafnvel þegar ytri aðstæður virðast helst benda til hins gagnstæða.
Í fyrstu Mósebók er okkur sagt að Abraham, faðir hans og fjölskyldan öll hafi farið frá Úr til að búa í Harran í um 1000 km fjarlægð frá fyrri heimkynnum. Harran var stór verslunarborg í norðvesturhluta Mesópótamíu í frjósama hálfmánanum (þar sem Sýrland er núna). Þó að hljótt sé um fyrstu ár Abrahams í Biblíunni, greinir munnleg hefð gyðinga frá því að hann hafi barist fyrir því að snúa mönnum til eingyðistrúar. Hann er sagður hafa mölbrotið skurðgoð föður síns, Tera, skurðgoðasmiðs sem „þjónaði öðrum guðum“, samkvæmt Jósúabók.
Í Biblíunni er sagt frá því þegar Abraham var 75 ára og faðir hans var dáinn, hafi Drottinn kallað til hans og boðið honum að yfirgefa allt – ætt sína og hús föður síns, menningu og trúarsöfnuði Mesópótamíu – og ferðast til „lands sem ég mun sýna þér“. Drottinn lofaði: „Ég mun gera þig að mikilli þjóð." Abraham fór frá Harran ásamt konu sinni, Saraí (sem Guð breytti síðar í Söru), Lot bróðursyni sínum, og „öllum fjárhlutum sem þeir höfðu eignast og þeim sálum er þeir höfðu fengið í Harran“. Þegar þeir komu til Kanaanlands birtist Drottinn Abraham og lofaði: „Niðjum þínum mun ég gefa þetta land.“
Þegar mikil hungursneyð reið yfir landið fór Abraham suður til Egyptalands. Þar sem hann óttaðist að Egyptar myndu drepa hann vegna fegurðar eiginkonu sinnar, þá kynnti Abraham Söru sem systur sína og leyfði Faraó að taka hana inn í húshald sitt. Að endingu sendi Drottinn plágu yfir Faraó og hús hans. Þegar egypski stjórnandinn komst að sannleikanum, vísaði hann Abraham og Söru skjótt á brott ásamt öllum þjónum, fénaði og auðæfum sem Abraham hafði áskotnast í Egyptalandi.